Reynsluboltarnir

Ég hef oft sagt að það besta við starfið mitt sé fólkið sem ég kynnist í gegnum kennsluna og vinnuna. Hóparnir eru svo fjölbreyttir og oft úr mismunandi menningarkimum þó fjarlægðin sé ekki meiri en frá Kelfavík til Vestfjarða. Umhverfið og samfélagið á uppeldisstöðunum hefur mótað fólkið og haft áhrif á viðhorf þess og gildi. Margir sem ég kynnist eiga erfiða reynslu af skóla og hafa fastmótaðar skoðanir á eigin getu í námi sem skólakerfið hefur svo góðfúslega staðfest með kassaflokkun og hefðbundnum römmum. Í langflestum tilvikum má hæglega brjóta þessa fyrirmynd niður og búa til nýja, bjartari með fleiri tækifærum. Þannig er það hjá flestum hópum.

Einn hópur nemenda á ekki eins greiðan aðgang að fjölbreyttu námsframboði og meirihluti nemenda í símenntunarmiðstöðvum. Þegar grunn námskeiðum í íslensku lýkur hafa innflytjendur eða einstaklingar með íslensku sem annað mál oft fáa möguleika á að taka næstu skref í námi og nýta íslensku kunnáttu sína til frekara náms sem metið er til eininga. Það hefur færst í aukana hjá MSS undanfarin ár að þessi hópur sækist í lengra nám og námsleiðir og hefur eins og aðrir áhuga á að mennta sig og skapa sér ný tækifæri. Þeir nemendur sem hafa sótt Grunnmenntaskólann eða Menntastoðir, sem eru grunnur í bóklegu námi og undirbúningur fyrir frumgreinadeildir og háskólabrú, hafa raunar lent á vegg þegar kemur að dýpri skilningi á textum og að nota ritun sem tjáningarmáta, til rökstuðnings á eigin hugmyndum og skoðunum eða til að umorða texta. 

Nemendur mínir sem tilheyra þessum hóp eru eins og áður sagði með mismunandi reynslu og standa misjafnlega að vígi, eðli málsins samkvæmt eru þeir sem hafa einhverja menntun fram yfir grunnskólapróf sterkari á vellinum. Þeir sem hafa komið til Íslands sem fullorðnir einstaklingar og hafa enga menntun eiga oft langt í land að ná tökum á rituninni. Svo eru þeir sem hafa setið á skólabekk í grunnskóla á Íslandi á unglingsárum en hafa ekki haldið áfram í námi eftir það, þeir einstaklingar þurfa að rifja mikið upp og hafa jafnvel tapað færninni að miklu leyti.

Óháð því hvaða reynslu nemendur hafa af íslensku og námi á íslensku eiga þessir einstaklingar það sameiginlegt að bæta orðaforða sinn verulega og taka miklum framförum við það að stunda nám á íslensku með íslenskumælandi nemendum. Sjálfstraustið eykst að sama skapi og þeir sjá möguleika á því að mennta sig og halda áfram í námi.