Tjáning á nýju tungumáli

Undanfarin ár hef ég kynnst þó nokkrum einstaklingum af erlendu bergi brotnu sem hafa viljað stunda nám á Íslandi og sækja sér réttindi út fyrir hefðbundin íslensku námskeið. Það getur reynst frekar erfitt skref því jafnvel þótt viðkomandi tali og skilji íslensku nokkuð vel þá er lesskilningur og ritfærni ekki nægileg miðað við nám á framhaldsskólastig. Þessa dagana er ég ásamt samstarfsfélaga að vinna þróunarverkefni í íslensku fyrir innflytjendur sem vilja fara í bóklegt nám á framhaldsskólastigi, með möguleika á áframhaldandi námi. Námskeiðið er hugsað sem undirbúingur fyrir frekara nám með áherslu á ritun og lestur á íslensku.

Eigin reynsla segir mér að það getur verið erfitt að koma orðum að hlutum á öðru tungumáli en móðurmáli, orðaforðinn er oft einfaldur og orðaröðin flækist fyrir manni. Nemendur mínir hafa deilt þessari reynslu sinni með mér og ég hef fylgst með því hvernig vinna með ritun hefur hjálpað þeim að sjá tungumálið í víðara samhengi, eins og púslmyndin verði fullmótuð þegar þú glímir við að setja saman setningar og móta þinn eigin texta. Þá þarftu að orða eigin hugsanir og hugmyndir um leið og þú pælir í því hvernig nýja tungumálið er uppbyggt, hvort sagnir koma á undan fallorðum, hvernig þú tengir saman setningar í málsgrein og þar fram eftir götunum. Með æfingunni verður þetta auðveldara og ég hef séð mun fleiri málfræði ljósaperur kvikna við yfirlestur á eigin texta heldur en við fallbeygingu og orðflokkagreiningu.

Ég er að lesa og leita að greinum um ritun í tungumálakennslu og mun nýta það í þróunarverkefni sem ég er að vinna hjá MSS (Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum). Hluta af námskeiðinu mun ég setja upp í stóru námskeiðsmöppuna og kennslufræði rökstuðningurinn mun nýtast við þróun verkefnisins.

Endilega deilið með mér hugmyndum, ráðum og reynslu sem ég er viss um að þið lumið á. Ég skelli hingað inn því sem rekur á fjörur mínar! 🙂 Þangað til næst…